Samkvæmt frétt CNN, sem fyrst fjallaði um meint veikindi leiðtogans, hafði Kim Jong-un gengist undir stóra hjartaaðgerð á einkasjúkrahúsi Kim-fjölskyldunnar í Hyangsanghéraðinu. En nú berast ný tíðindi af heilsufari leiðtogans og það frá nágrönnunum í Suður-Kóreu. Samkvæmt því sem Fox News hefur eftir talsmanni forseta Suður-Kóreu þá er leiðtoginn á lífi og við ágæta heilsu. Hann hafi haldið sig í Wonsan síðan 13. apríl. Ekkert hafi sést þar eða komið fram sem bendi til að eitthbvað sé að.
Norður-Kórea er lokaðasta land heims og ekki auðvelt að afla frétta þaðan. Þarlend yfirvöld hafa ekki sagt neitt um heilsu leiðtogans eða dvalarstað hans.
Í gær birti bandarísk hugveita gervihnattamyndir sem sýna einkalest Kim-fjölskyldunnar í Wonsan. Myndirnar voru teknar frá 21. til 23. apríl. En ekki er hægt að útiloka að um sviðsetningu sá að ræða af hálfu norður-kóreskra yfirvalda til að láta líta út fyrir að leiðtoginn sé í fríi í Wonsan. Enginn formlegur arftaki hefur verið útnefndur ef Kim Jong-un hverfur frá völdum af einhverri ástæðu og líklegt að mikil átök verði innan stjórnkerfis landsins ef rétt reynist að hann sé látinn. Þar gætu yfirmenn hersins tekist á við Kim-fjölskylduna um völdin.