Vísindamennirnir segja að höfuðverkur og svimi séu einkenni sem fólk þurfi að vera á varðbergi gagnvart. Þeir rannsökuðu 214 smitaða einstaklinga og spurðu þá út í hvaða einkennum þeir hefðu fundið fyrir. 36 prósent þeirra sögðust hafa fundið fyrir áhrifum á taugakerfið, þar á meðal höfuðverk og svima. Beinverkir og taugaverkir voru einnig nefndir til sögunnar.
Í sumum tilfellum komu þessi einkenni fram samhliða öndunarörðugleikum, hósta og hita.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í JAMA Neurology. Þar segir Ling Mao, aðalhöfundur hennar, að sjúklingar og læknar verði að gefa margvíslegum heilsufarseinkennum góðan gaum í tengslum við COVID-19.