Bild er meðal þeirra þýsku fjölmiðla sem skýra frá þessu. Fram kemur að konungurinn hafi tekið 20 frillur sínar með til Þýskalands ásamt miklum fjölda þjónustufólks.
Hótelið, sem er í Garmisch-Partenkirchen í Bæjaralandi, er ekki af verri endanum enda lúxushótel sem býður upp á útsýni yfir Alpana. Það átti eiginlega að vera lokað vegna COVID-19 faraldursins en sérstök heimild fékkst til að hýsa konunginn þar.
Það þarf ekki að koma á óvart að konungurinn velji Þýskalands því það er það land sem hann fer oftast í frí til og hann á sjálfur sumardvalarstað ekki langt frá hótelinu.
Taílendingar hafa ekki tekið þessum fréttum vel. Á Twitter er eitt vinsælasta myllumerkið nú „#Hvað höfum við yfirleitt með konung að gera?“ í lauslegri íslenskri þýðingu. Undir þessu myllumerki hafa landsmenn lýst reiði sinni og hneykslun. Myllumerkið hefur nú verið notað rúmlega 1,2 milljón sinnum. Það er einmitt mjög athyglisvert því Taílendingar hafa löngum verið þekktir fyrir að sýna konungi sínum mikla virðingu og allt að 15 ára fangelsi liggur við því að gagnrýna konunginn.