Í mörgum evrópskum höfnum standa yfirvöld frammi fyrir þeim vanda að mikið kemur nú af vörum frá Asíu með skipum sem hefur seinkað vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Það er auðvitað alvanalegt að skip komi með vörur frá Asíu en nú er vandinn sá að enginn vill taka við þeim. Margar þeirra voru pantaðar eftir að Kínverjar lokuðu samfélaginu vegna faraldursins en þá hafði veiran ekki borist að neinu marki til Evrópu og því var enn mikil eftirspurn eftir kínverskum vörum.
Nú berast þessar vörur og enda í höfnum eins og Hamborg, Rotterdam og Antwerpen. En þar sem fyrirtæki og verslanir eru lokaðar þessa dagana hefur ákveðinn flöskuháls myndast við að koma vörunum af hafnarsvæðunum.
Það stefnir því í að innflytjendur verði í vandræðum með að koma vörum sínum fyrir því vörugeymslur fyllast hratt og engin leið er að koma þeim lengra áleiðis í keðjunni.