Á sjöunda tímanum í gærkvöldi fann vegfarandi lík í skógi í kirkjugarði í Älta sem er sunnan við Stokkhólm. Lögreglan hefur staðfest að morðrannsókn standi nú yfir. Hinn látni var um 25 ára gamall. Aftonbladet segist hafa heimildir fyrir að hendur mannsins hafi verið bundnar fyrir aftan bak og að hann hafi verið skotinn til bana.
Maðurinn fannst í skóglendi í kirkjugarðinum, nokkur hundruð metra frá kapellu og um 100 metra frá vegi.
Sérfræðingar lögreglunnar unnu að vettvangsrannsóknum fram á nótt. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.