Fyrir tveimur árum heimsóttu bandarískir diplómatar tilraunastofu í Wuhan þar sem unnið var að rannsóknum á hvernig kórónuveira getur borist úr leðurblökum í menn. Þeim leist ekki á það sem þeir sáu og sendu opinberar aðvaranir til Washington segir í umfjöllun The Washington Post. Þeir óttuðust að veiran gæti borist í menn og valdið faraldri. Þetta hafa sumir innan bandaríska stjórnkerfisins nú rifjað upp og spyrja hvort hugsast geti að þessi tilraunastofa sé staðurinn þar sem COVID-19 veiran varð til.
Það eru engar sannanir fyrir þessari kenningu. Þvert á móti er talið að veiran hafi borist í fólk úr smituðu dýri sem var selt á Huanan-dýramarkaðnum í Wuhan. En hvernig eða hvaðan dýrið fékk veiruna er ekki vitað. The Guardian segir að margir vísindamenn hafi bent á leðurblökur í þessu samhengi. Í umfjöllun vísindaritsins Nature kemur fram að flestir vísindamenn telji að COVID-19 hafi komið úr dýrum en ekki frá tilraunastofu. The New York Times hefur bent á að þrátt fyrir að kínversku vísindamennirnir hafi unnið að tilraunum með kórónuveiru úr leðurblökum þá séu engar sannanir fyrir að það sé kórónuveiran sem við þekkjum sem COVID-19 í dag.
Þrátt fyrir þetta þá er samsæriskenningin nokkuð útbreidd. Margir í ríkisstjórn Trump telja að kínversk yfirvöld leyni því að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu í Wuhan. Í aðvörununum, sem diplómatarnir sendu heim 2018, kemur fram að á tilraunastofunni hafi verið „alvarlegur skortur á nægilega menntuðum tæknimönnum og vísindamönnum“ en bráðnauðsynlegt væri að hafa fólk með slíka menntun við þessar tilraunir.
Bandarísk tilraunastofa í Texas styrkti rannsóknir Kínverjanna fjárhagslega sem og nokkur bandarísk samtök en diplómatarnir voru þeirrar skoðunar að Kínverjarnir þyrftu enn meiri aðstoð af því að rannsóknin væri svo hættuleg en um leið mikilvæg.
En það eru fleiri en samstarfsmenn Trump sem trúa á samsæriskenningar um að Kínverjar hafi búið veiruna til. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakannanar frá Pew Research Center þá trúir tæpur þriðjungur Bandaríkjamanna þessu einnig. Sumir þeirra telja að veiran hafi verið búin til og dreift af ásettu ráði og er það raunar enn útbreiddari samsæriskenning.
Shi Zhengli, sem stýrði rannsóknunum, hefur alltaf neitað því að veiran eigi uppruna sinn á tilraunastofunni hennar. Hún hefur sagt að þvert á móti hafi rannsóknin orðið til þess að mjög fljótlega lá ljóst fyrir að COVID-19 gæti hafa komið frá leðurblökum en það bentu hún og teymi hennar á í rannsókn sem var birt í Nature í febrúar.
Bandarískar leyniþjónustustofnanir eru nú að rannsaka hvort COVID-19 hafi verið búin til á kínverskri tilraunastofu segir CNN og hefur þetta eftir mörgum heimildarmönnum sem þekkja til málsins. Fram kemur að ekki sé talið að veiran sé hluti af tilraunum með lífefnavopn og að leyniþjónustustofnanir rannsaki einnig aðrar kenningar um tilurð veirunnar.
CNN hefur eftir heimildarmanni að ekki hafi tekist að færa sönnur á þessar samsæriskenningar en verið sé að rannsaka hvort hugsast geti að starfsmaður á tilraunastofunni hafi smitast og borið veiruna með sér og smitað aðra.
Kínversk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að þessar kenningar geti verið réttar. Heimildarmaður, í COVID-19 viðbragðsteymi Hvíta hússins, sagði að rétt væri að hafa í huga að í hvert sinn sem faraldur brjótist út komi fram samsæriskenningar um að þeir eigi rætur að rekja til tilraunastofa.