Cormane, sem nú er 57 ára, var handtekinn af brasilísku lögreglunni í Belo Horizonte í suðausturhluta landsins. Interpol skýrir frá þessu í fréttatilkynningu. Hann hafði verið á flótta undan löngum armi laganna síðan um áramótin 1993-1994 þegar hann myrti Vargas. Hann hafði notast við falskt nafn öll þessi ár og haldið sig í Brasilíu.
Vargas, sem var 18 ára þegar hún var myrt, var flutt á sjúkrahús í Barranquilla í Kólumbíu að morgni nýársdags 1994. Hún var með skotsár á höfði. Ekki tókst að bjarga lífi hennar. Hún hafði farið í áramótagleðskap með Cormane sem hafði fengið leyfi foreldra hennar til að taka hana með í glepskapinn. Hann var töluvert eldri en hún, eða 31 árs, og var fjölskylduvinur segir í umfjöllun El Periodico.
Þegar Vargas skilaði sér ekki heim um morguninn fór faðir hennar að leita að henni. Hann frétti að hún hefði lent í slysi og hefði verið flutt á sjúkrahús. Hann fór þangað og hitti Cormane sem sagði honum að hún hefði skotið sig sjálfa í höfuðið. Lögreglan komst þó fljótlega á þá skoðun að þetta ætti ekki við rök að styðjast.
Nokkrum árum síðar var Cormane dæmdur í 27 ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað Vargas og myrt. Dómurinn var kveðinn upp að honum fjarverandi.