BBC skýrir frá þessu. Fram kemur að Astrazeneca geti fljótlega byrjað að afhenda mörg hundruð milljónir skammta af bóluefninu.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá getur bóluefnið dregið úr útbreiðslu veirunnar og um leið veitt vernd gegn veikindum og dauða. „Niðurstöðurnar sýna að bóluefnið virkar gegn COVID-19,“ sagði Pascal Soriot, yfirmaður hjá Astrazeneca, að sögn BBC.
Astrazeneca vonast til að bóluefnið verði samþykkt til notkunar fyrir áramót eða strax í byrjun næsta ár. Soriot sagði að fyrirtækið væri byrjað að senda gögn til yfirvalda víða um heim í því skyni að fá samþykki þeirra fyrir notkun bóluefnisins. Einnig sé dreifingarkerfi fyrirtækisins í fullum gangi og tilbúið til að dreifa mörg hundruð milljónum skammta af bóluefninu um allan heim án þess að fyrirtækið hagnist á því.
Flestir þátttakendanna í rannsókninni voru yngri en 55 ára en niðurstöðurnar benda til að bóluefni veiti eldra fólki einnig vernd gegn veirunni. Enn er þó ekki alveg ljóst hvaða skammtastærð af bóluefninu veitir mesta vernd. Þegar niðurstöður tilrauna með það voru kynntar fyrir tveimur vikum kom fram að þrjú mismunandi stig verndar hefðu komið í ljós, allt frá 62% upp í 90% en meðalverndin var 70%. Ástæðan er að styrkleiki annars af þeim tveimur skömmtum sem voru gefnir í tilrauninni var aðeins helmingurinn af því sem átti að vera. En það var lán í óláni því sú skammtastærð veitti besta vernd eða 90% á meðan „eðlilegar“ skammtastærðir veittu 62% vernd.