Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá dönsku hirðinni. Fram kemur að Christian, sem er næstur á eftir föður sínum í erfðaröðinni að dönsku krúnunni, hafi verið sendur í sýnatöku eftir að smit komu upp í Tranegårdskolen í Hellerup þar sem hann stundar nám.
Christian hefur ekki átt í samskiptum við aðra í konungsfjölskyldunni en foreldra sína og systkini sem eru nú öll í einangrun í Amalienborg í Kaupmannahöfn þar sem þau búa. Fjölskyldan fylgir leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda og mun vera í einangrun þar til óhætt er að ljúka henni samkvæmt leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda um viðbrögð við smiti.
Danska ríkisútvarpið segir að enn liggi ekki fyrir hvaða áhrif þetta mun hafa á opinberar skyldur krónprinsins og krónprinsessunnar sem eiga að vera viðstödd nokkra viðburði á næstu dögum.
Þetta er fyrsta kórónuveirusmitið sem kemur upp í dönsku konungsfjölskyldunni, að minnsta kosti svo vitað sé opinberlega.