Þetta sagði hann á fundi samtaka fréttamanna hjá SÞ á mánudaginn. Hann sagði þá að ríkisstjórnir og stofnanir verði að grípa til aðgerða til að berjast gegn vantrausti og röngum upplýsingum. „Til að sigrast á COVID-19 verðum við einnig að sigrast á samhliða heimsfaraldri vantrausts sem hefur stöðugt haldið aftur af samstíga aðgerðum okkar gegn sjúkdómnum og getur grafið undan getu okkar til að bólusetja gegn honum,“ sagði hann.
Hann sagði að Rauði krossinn fagni þeim létti og bjartsýni sem þróun bóluefna gegn kórónuveirunni hafi í för með sér en ríkisstjórnir og stofnanir verði að byggja upp traust í samfélögum þar sem rangar upplýsingar hafa skotið rótum. Hann sagði að vaxandi efasemdir um bóluefnið séu uppi um allan heim og vitnaði í rannsókn frá Johns Hopkins háskólanum sem nær til 67 ríkja. Niðurstöður hennar sýna að traust fólks á bóluefnum gegn kórónuveirunni minnkaði mikið frá júlí fram í október.