Yfirvöld hafa reynt að halda aftur af útbreiðslu veirunnar en andstætt því sem hefur verið gert víða annars staðar hefur ekki verið gripið til umfangsmikilla lokana. Áhersla hefur verið lögð á notkun andlitsgríma, að fólk haldi góðri fjarlægð sín á milli, handþvottar og að forðast fjölmennar samkomur innanhúss. Skólum var þó lokað í mars og fram í maí og háskólar lögðu meiri áherslu á fjarkennslu.
En þrátt fyrir að hversdagslífið hafi nú færst nær því sem áður var vara sérfræðingar við áhrifum einangrunar og ótta við starfsmissi, þetta geti leitt til andlegrar heilbrigðiskrísu í landinu.
Sjálfsvígstíðnin hefur aukist sérstaklega mikið hjá konum. Í október tóku 83% fleiri konur eigið líf en í október á síðasta ári. Karlar eru þó í miklum meirihluta þeirra sem fremja sjálfsvíg. Washington Post hefur eftir Michiko Ueda, prófessor í sjálfsvígsforvörnum við Waseda háskólann í Tókýó, að konur hafi farið verr út úr heimsfaraldrinum en karlar. Margar hafi misst vinnuna í ferðaiðnaðinum, smásöluverslun og á veitingastöðum en þessir geirar hafa farið verst út úr faraldrinum.
Sjálfsvígstíðnin í Japan er ein sú hæsta í heiminum og sjálfsvíg eru ein algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 15 til 34 ára samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum. Sjálfsvígstíðnin er 18,5 sjálfsvíg á hverja 100.000 íbúa.