Norska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni Háskólasjúkrahússins í Osló að margir séu slasaðir. Neyðaráætlun sjúkrahússins hefur verið virkjuð og starfsfólk kallað til starfa. Skurðlæknateymi er tilbúið og verið að undirbúa komu slasaðra.
Á vettvangi í Ask í Gjerdum er nú fjölmennt lögreglulið og annað björgunarlið. Þyrlur eru á vettvangi auk sjúkrabíla og sjálfboðaliða.
„Ástandið er alvarlegt. Við erum með mikinn viðbúnað á svæðinu og reynum að fá yfirsýn yfir umfang skriðunnar og erum að rýma svæðið,“ hefur Norska ríkisútvarpið eftir talsmanni lögreglunnar. Ekki þykir óhætt að fara inn á allt skriðusvæðið vegna hættu á frekari skriðuföllum.