CBS News skýrir frá þessu. Fram kemur að þrátt fyrir að árið hafi boðið Bandaríkjamönnum upp á heimsfaraldur með miklum veikindum, fjölda andláta, efnahagsvandræðum og atvinnuleysi í hæstu hæðum þá hafa sagnfræðingar hjá þekktum bandarískum háskólum á borð við Yale og Stanford tekið saman lista yfir ár sem voru enn erfiðari fyrir Bandaríkjamenn.
Í efsta sæti listans er árið 1862 en það þykir hafa verið versta ár borgarastyrjaldarinnar. Á einum degi, 17. september, féllu, særðust eða hurfu 23.000 hermenn úr herjum bæði Suðurríkjanna og Norðurríkjanna. Í heildina féllu rúmlega 600.000 hermenn í stríðinu.
Í öðru sæti er 1929 en þá hrundu bandarískir hlutabréfamarkaðir. Mörg þúsund fjárfestar misstu aleiguna þann 29. október og djúp kreppa skall á sem varði í um áratug.
Í þriðja sæti er 1838 en þá voru mörg þúsund Cherokee-indíánar neyddir til að yfirgefa heimkynni sín í suðausturhluta Bandaríkjanna og ganga rúmlega 1.600 km til Oklahoma þar sem þeim hafði verið úthlutað nýju landsvæði. Um 4.000 manns létust á leiðinni og voru grafnir meðfram gönguleiðinni sem fékk heitið „Trail of Tears“.
Í fjórða sæti er 1918/1919 þegar milljónir manna um allan heim létust af völdum spænsku veikinnar. Önnur bylgja faraldursins náði hámarki 1919 og varð 675.000 Bandaríkjamönnum að bana.
Í fimmta sæti er 1968 en þá var mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King myrtur og sömu örlög hlaut öldungadeildarþingmaðurinn Robert F. Kennedy. Mikil og ofbeldisfull mótmæli og óeirðir settu svip sinn á árið.
Í sjötta sæti er 1962 en þá var Kúbukrísan í hámarki og voru Bandaríkin og Sovétríkin við það að hefja kjarnorkustríð.
Í sjöunda sæti er 2001 en þá létust tæplega 3.000 manns þegar hryðjuverkamenn á vegum al-Kaída gerðu árásir á World Trade Center í New York og Pentagon. Þriðja árás þeirra mistókst því farþegar í flugvél, sem þeir höfðu rænt, snerust til varnar gegn flugræningjunum og hrapaði vélin til jarðar í Pennsylvania.
Í áttunda sæti er svo 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar en nú hafa um 335.000 Bandaríkjamenn látið lífið af hennar völdum.
Í heimssamhengi nefndu sagnfræðingarnir þrjú verstu árin fyrir jarðarbúa.
Þar er árið 1348 efst á blaði en þá náði svarti dauði hámarki. 1944 kemur þar á eftir en þá var Helförin í hámarki. Þriðja árið að mati sagnfræðinganna er 1816 en þá varð mikið eldgos í Indónesíu og skyggðu gosefni fyrir geisla sólarinnar.