Á annað hundrað smit hafa greinst að undanförnu og því tilkynnti forsætisráðherra ríkisins um hertar sóttvarnaaðgerðir á gamlárskvöld. Borgarbúum verður meinaður aðgangur að miðborginni á gamlársdag nema þeir hafi fengið leyfi yfirvalda til að fara þangað. Þetta mun væntanlega þýða að fámennt verður í miðborginni en gamlárskvöld er að jafnaði það kvöld ársins sem flestir eru þar. Einnig hafa reglur um samkomur utanhúss verið hertar. The Guardian skýrir frá þessu.
Yfirvöld segja að of mikil áhætta felist í að leyfa framlínufólki að koma saman til að fylgjast með flugeldasýningunni, það geti ógnað heilsu þess. „Við munum finna annan tíma á næsta ári til að heiðra ykkur fyrir framlag ykkar,“ sagði Gladys Berejiklian, forsætisráðherra New South Wales, þegar hún tilkynnti um breytingarnar í gær.
Flugeldasýningin mun fara fram eins og venjulega á miðnætti en fólk er hvatt til að láta nægja að fylgjast með henni í sjónvarpi.