Bretar hafa nú þegar bólusett 600.000 manns með bóluefninu frá Pfizer en margir binda miklar vonir við að bóluefnið frá AstraZeneca muni breyta gangi mála algjörlega. „Ástæðan er að Oxford-bóluefnið er miklu ódýrara og einfaldara í meðförum. Það þarf að geyma Pfizer-bóluefnið við 70 gráðu frost en Oxford-bóluefnið þarf bara að vera í ísskáp. Það einfaldar framkvæmd bólusetninga mikið,“ sagði Semple í samtali við BBC.
Bresk yfirvöld hafa pantað 100 milljónir skammta af bóluefninu en það dugir til að bólusetja alla þjóðina. ESB hefur pantað 400 milljónir skammta.
„Leyfi til notkunar Oxford-bóluefnisins mun breyta öllu. Bæði af því að það er ódýrara og auðveldara í meðförum en einnig vegna þess að þetta bóluefni hjálpar líkamanum við að mynda svokallaðar veiði/drápsfrumur sem geta gert út af við COVID-19 sýkingu. Þetta er frábært bóluefni,“ sagði Semple.
„Þeir sem verða bólusettir munu öðlast ónæmi á nokkrum vikum. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir þá sem eru í áhættuhópum. Til að hjarðónæmi náist í samfélaginu þurfum við líklega að bólusetja 70 til 80% allra og það mun taka tíma. Ég giska á að við náum því marki í sumar,“ sagði hann einnig.