Fauci hefur verið stjórn Donald Trump til ráðgjafar varðandi viðbrögð við heimsfaraldrinum og mun halda því starfi áfram hjá stjórn Joe Biden sem tekur við völdum þann 20. janúar næstkomandi.
Á miðvikudaginn sagði Joe Biden: „erfiðustu dagar Bandaríkjanna eru fram undan, ekki að baki“ og átti þar við heimsfaraldurinn.
Mörg bandarísk sjúkrahús eru nú yfirfull eða nánast yfirfull. Óttast er greindum smitum muni fjölga mikið nú í kjölfar jóla og áramóta þar sem fjölskyldur og vinir hittast. Bandaríkin eiga því á hættu að yfir ríði „bylgja eftir bylgju“ af nýjum smitum sagði Fauci í samtali við CNN. „Við erum á krítískum tímapunkti,“ sagði hann einnig.
Færri lögðu land undir fót í Bandaríkjunum um jólin að þessu sinni en venja er en samt sem áður voru margir á faraldsfæti, mun fleiri en gott er þegar heimsfaraldur herjar að mati sérfræðinga. Í síðustu viku fluttu flugfélögin að meðaltali um eina milljón farþega á dag.
Í kjölfar þakkargjörðarhátíðarinnar í nóvember fjölgaði smitum mikið en margir lögðu þá land undir fót til að fagna hátíðinni með ættingjum og vinum.
Rúmlega 19 milljónir Bandaríkjamanna hafa greinst með veiruna og rúmlega 332.000 hafa látist.