Ekki hefur verið skýrt frá því opinberlega hvernig Bandaríkjamönnum tókst að hafa uppi á Mansour og hvernig þeim tókst að forðast pakistanskt ratsjárkerfi. Það eina sem bandarísk yfirvöld hafa sagt er að fylgst hafi verið rafrænt með Mansour.
Pakistanskur dómstóll hefur undanfarnar vikur verið að gera upp dánarbú Mansour. Fram hefur komið að Mansour hafi átt fimm fasteignir í Karachi og að hann hafi verið líftryggður. Allt var þetta skráð á fölsk nöfn og því falla allar eignirnar og líftryggingin pakistanska ríkinu í hlut. Tryggingafélagið þráaðist við að greiða líftrygginguna út og endurgreiddi iðgjaldið til að koma sér hjá greiðslu tryggingarinnar. Það gekk ekki upp og þurfti það á endanum að greiða pakistanska ríkinu alla upphæðina.
Hald var lagt á fasteignirnar fimm og verða þær seldar á uppboði og reiknað með að fyrir þær fáist sem nemur um 30 milljónum íslenskra króna.
Málið hefur beint sjónum fólks að því hvernig það sé hægt að standa fyrir svo umfangsmikilli ólöglegri starfsemi í Pakistan. Mansour var frá Afanistan. Hann er talinn hafa orðið sér úti um fölsuð pakistönsk skilríki í upphafi aldarinnar. Talið er að fasteignirnar fimm í Karachi séu aðeins toppurinn á ísjakanum, enginn veit hvað hann og aðrir leiðtogar Talibana eiga í Pakistan.