Í Noregi eru ákveðnar matarvenjur oft á tíðum staðbundnar. Svínakjöt er vinsælt, sérstaklega pörusteik. Sumir bjóða upp á jólapylsu með svínakjötinu. Aðrir borða lambakjöt og oft er boðið upp ákveðnar pylsutegundir með því. Enn aðrir borða þorsk, lútfisk eða þurrkaðan fisk en bjóða oft upp á svína- eða lambakjöt þar á eftir.
Svíar eru hrifnir af hlaðborðum á aðfangadag. Heitir og kaldir réttir prýða þau. Jólaskinka, pylsur, kjötbollur (örugglega ekki úr IKEA), síld, reyktur lax, grafinn lax, áll, ostar og fleira góðgæti þykir ómissandi á sænskum hlaðborðum. Jólaskinkan er einnig allt að því skyldumatur á hlaðborðinu og lútfiskur er líka vinsæll.
Í Danmörku er jólamaturinn að hluta landshlutabundinn en það hefur þó dregið úr því á síðustu árum. Miklar líkur eru á pörusteik sé á boðstólum eða endur, sem eru mjög vinsæll jólamatur. Gæsir eru einnig vinsælar. Brúnaðar kartöflur þykja ómissandi um jólin og auðvitað ris a la mande, sem er dönsk uppfinning þótt nafnið gefi það ekki til kynna.
Reykt svínakjöt er vinsælt á veisluborðum Finna á aðfangadag og er vinsælt að bera það fram með soðnum grænum baunum og öðru grænmeti. Einnig eru hlaðborð, í líkingu við það sem tíðkast í Svíþjóð, vinsæl. Rauðrófusalat, sveppasalat, síld, grafinn lax, kavíar og kæfur prýða það oft auk svínakjöts og hrísgrjónagraut og lútfisk má oft finna á þeim. Kalkúnn hefur öðlast sífellt meiri vinsældir sem jólamatur í Finnlandi á undanförnum árum.