Þetta er mat Calum Semple, sem er prófessor í smitsjúkdómum. Hann telur miklar líkur á að „breska afbrigðið“ muni breiðast út um allan heim á skömmum tíma. Það hefur til dæmis greinst hér á landi, í Danmörku, Suður-Afríku, Hollandi, Ástralíu, Ítalíu, Belgíu og Noregi. „Þessi stökkbreyting hefur klárt þróunarlegt forskot á þau afbrigði sem fyrir eru. Það að það er miklu meira smitandi er klárlega kostur þegar kemur að útbreiðslu. Það mun einfaldlega slá keppinautum sínum við í samkeppninni,“ sagði Semple í samtali við The Daily Telegraph.
Hann varaði einnig við hraðri útbreiðslu afbrigðisins í Evrópu eins og hefur verið raunin í Bretlandi og sagði líklegt að ástandið verði svipað í Evrópu og víðar og það er nú í Bretlandi.
Veiran virðist breiðast hratt út í Bretlandi og segir Patrick Vallance, vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, að á næstu dögum verði fleiri landshlutar færðir upp í efsta flokk sóttvarnaráðstafana, Tier 4.
Margir sérfræðingar óttast að nýja afbrigðið verði nær óstöðvandi og að það muni að lokum berast í þá viðkvæmustu í samfélaginu, þá sem tekist hefur að vernda síðan faraldurinn braust út. Tom Whipple, ritstjóri heilbrigðismála hjá The Times, velti málinu fyrir sér í blaðinu: „Fram að þessu höfum við haldið okkur við að ef við lokum samfélaginu þá getum við nokkurn veginn haft stjórn á veirunni. En hvað ef það verður ekki tilfellið? Ef smitin verða of mörg neyðumst við til að endurskoða allar sóttvarnaráðstafanir okkar á róttækan hátt.“