Biden fékk skammt af bóluefninu frá Pfizer. Nokkrum klukkustundum áður hafði eiginkona hans, Jill Biden, fengið sinn skammt á sama sjúkrahúsi.
Biden var klæddur í rúllukragapeysu þegar hann kom á sjúkrahúsið og bretti hann vinstri ermina upp að öxl áður en hann var sprautaður í handlegginn. Hjúkrunarfræðingur sem sprautaði hann bauð honum að telja upp að þremur áður en hún myndi stinga hann en því hafnaði hann: „Þú gerir þetta bara þegar þú ert tilbúin,“ sagði hann við hana.
Hann lagði áherslu á að bóluefnið væri öruggt og sagði að það yrði að hrósa Donald Trump og fráfarandi stjórn hans fyrir að hafa komið dreifingu bóluefna af stað.
„Ég geri þetta til að sýna að fólk eigi að vera reiðubúið þegar það hefur tækifæri til að láta bólusetja sig. Það er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ sagði Biden og bætti við að dreifing bóluefnisins muni „taka tíma“ og hvatti landa sína til að sýna aðgæslu um jólin til að forðast að dreifa veirunni enn frekar. Hann hvatti fólk til að nota andlitsgrímur og til að halda sig heima ef þess væri nokkur kostur.
Reiknað er með að Kamala Harris, verðandi varaforseti, og eiginmaður hennar verði bólusett í næstu viku. Auk þeirra hafa Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, og Mike Pence, varaforseti, nú þegar verið bólusett. Donald Trump, forseti, hefur ekki enn verið bólusettur og ekkert hefur verið gefið út um hvort og þá hvenær hann muni láta bólusetja sig. Hann hefur haldið sig utan kastljóss fjölmiðla að mestu eftir ósigurinn í forsetakosningunum og virðist einna helst eyða tíma sínum í að reyna að finna leiðir til að geta setið áfram á forsetastóli.