Rúmlega 16.000 kórónuveirusjúklingar liggja nú á sjúkrahúsum í ríkinu. AP segir að á sumum sjúkrahúsum séu gjörgæsludeildir nær fullar. Á meðan starfsfólk sjúkrahúsanna berst og reynir að veita sjúklingum nauðsynlega umönnun fjölgar smitum frá degi til dags. Í lok nóvember greindust tæplega 18.000 smit á dag. Í síðustu viku voru þau komin yfir 50.000 á dag. Þar af voru 16.000 í Los Angeles sem yfirvöld hafa sagt vera „nýja miðju“ faraldursins í Bandaríkjunum að sögn LA Times.
„Ef okkur tekst ekki að stöðva þessa aukningu munu sjúkrahúsin láta undan álaginu. Ef þú færð hjartaáfall, ef þú lendir í umferðarslysi, ef þú dettur niður úr stiga eða færð heilablóðfall þá verður kannski ekki laust sjúkrarúm fyrir þig,“ sagði Brad Spellberg, hjá USA Medical Center, á fréttamannafundi á föstudaginn.
Eric Garcetti, borgarstjóri í Los Angeles, tók í sama streng og sagði að hugsanlega þurfi að lýsa yfir neyðarástandi í borginni ef álagið á sjúkrahúsin eykst enn meira. Ef innlögnum fækki ekki á næstu þremur til fimm vikum þá láti heilbrigðiskerfi borgarinnar undan álaginu.
Um 300.000 sýni eru tekin á sólarhring í ríkinu. Fjöldi jákvæðra sýna er 11,8% að meðaltali á síðustu 14 dögum. Í Los Angeles var hlutfallið í síðustu viku 14%. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að ef hlutfallið sé yfir 5% sé faraldurinn stjórnlaus.