Við húsleit á heimil hjónanna fann lögreglan undarlegt safn sem hefur vakið mikla undrun og hugleiðingar um tilganginn með því. Það er safn gamalla greina um óupplýst morð. Vg.no skýrir frá þessu.
Fram kemur að sumar greinarnar fjalli um morð sem eru tíu ára eða eldri og voru framin í Lørenskog. Eitt morðanna var morðið á Najaf Abbas sem var skotinn til bana á pitsastað í Lørenskog 2006. Morðinu, sem er óupplýst, hefur verið lýst sem hreinni aftöku framinni af fagmanni. Annað morð, sem fjallað er um í þessum greinum, er morðið á Meta Øverli sem var stungin til bana á heimili sínu 2006. Hún var 75 ára.
Vg hefur ekki upplýsingar um hversu margar greinar höfðu verið geymdar eða hvort það var Tom sem hafði geymt þær eða Anne-Elisabeth en spurningar hafa vaknað um af hverju þessar greinar voru geymdar. Haft er eftir talsmanni lögreglunnar að hún hyggist spyrja Tom út í þessar greinar.
Svein Holden, verjandi Tom, gat ekki tjáð sig um greinarnar vegna þeirrar þagnarskyldu sem hvílir á honum. „Ég vil þó leggja áherslu á að fjölskyldan er nú að fara inn í þriðju jólin sem hún veit ekki hver örlög Anne-Elisabeth Hagen voru. Við vonum að rannsóknin haldi áfram af fullum þunga 2021 og að lögreglan gefist ekki upp fyrr en hún hefur handtekið þá sem bera ábyrgð á þessu,“ sagði hann.
Norska ríkisútvarpið skýrði einnig frá því í gær að lögreglan hefði fundið skammbyssur og hlaðna haglabyssu í svefnherbergi hans. Einnig fundust skotfæri á heimilinu. Hagen er ekki með skotvopnaleyfi. Hann hefur játað brot gegn skotvopnalöggjöfinni að hluta.
Tom Hagen neitar að hafa átt aðild að hvarfi og morðinu á eiginkonu sinni en hefur enn stöðu grunaðs.