Nú hafa Danmörk, Holland, Írland, Belgía, Frakkland, Þýskaland og Ítalía tilkynnt að lokað hafi verið fyrir alla flugumferð frá Bretlandi. Dönsk stjórnvöld voru síðust til að bætast í þennan hóp en Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, tilkynnti þetta á Twitter í nótt. Bann Dana gildir í 48 klukkustundir til að byrja með á meðan farið er yfir stöðuna.
Það er mat danskra stjórnvalda að stökkbreytta afbrigðið, sem hefur breiðst út í Lundúnum og víðar á Englandi, geti gert yfirvöldum erfiðara fyrir við að hafa stjórn á faraldrinum og af þeim sökum verði að banna allt flug frá Bretlandi næstu 48 klukkustundir. Bannið tekur gildi klukkan 10 í dag að dönskum tíma.
Fleiri Evrópuþjóðir íhuga nú að banna allt flug frá Bretlandi, þar á meðal Noregur og Svíþjóð. Frakkar og Belgar hafa einnig bannað allar siglingar frá Bretlandi og Frakkar hafa lokað Ermarsundsgöngunum.