Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá óháðu samtökunum Committee to Protect Journalists (CPJ) sem vinna að fjölmiðlafrelsi. Til 1. desember voru að minnsta kosti 274 blaðamenn handteknir. Þeir hafa aldrei verið fleiri frá því að CPJ hóf skráningar sínar í byrjun tíunda áratugarins. Á síðasta ári voru 250 blaðamenn settir í fangelsi.
Í skýrslunni kemur fram að ástæðan fyrir mörgum handtökum á þessu ári hafi aðallega verið vegna mótmæla og pólitískrar spennu. Flestar handtökurnar hafa átt sér stað í Kína, Tyrklandi, Egyptalandi og Sádi-Arabíu. Tveir blaðamenn, hið minnsta, hafa látist eftir að hafa smitast af kórónuveirunni á meðan þeir voru í haldi.
„Það er mikið áfall og viðbjóðslegt að sjá að metfjöldi blaðamanna er handtekinn í miðjum heimsfaraldri,“ sagði Joel Simon forstjóri CPJ í yfirlýsingu.
CPJ segir að skortur á alþjóðlegum leiðtogum og lýðræðislegum gildum og sérstaklega árásir Donald Trump, Bandaríkjaforseta, á fjölmiðla sé ástæðan fyrir að einræðisherrar og alræðisstjórnir hafi ráðist harkalega gegn blaðamönnum.