Á pökkunum voru gulir plastmiðar með rauðu lógói sem á stóð „KW“. Um 400 manns búa á Ailuk Atoll en það var eyjarskeggi sem fann bátinn að sögn Radio New Zealand. Íbúarnir gátu ekki lyft bátnum, hann var of þungur, og kíktu því inn í hann og fundu þá stórt rými undir dekkinu og þar var kókaínið.
Lögreglunni var tilkynnt um málið og flutti hún fíkniefnin til höfuðborgarinnar Majuro sem er á annarri eyju. Öllu kókaíninu, að 2 kg undanskildum, var síðan eytt nú í vikunni. Það sem var skilið eftir verður sent til bandarískra yfirvalda til greiningar.
Verðmæti kókaínsins er um 80 milljónir dollara. Yfirvöld segja að báturinn hafi líklega komið frá Suður- eða Mið-Ameríku og hafi jafnvel verið á sjó í allt að tvö ár.
Íbúar á Marshalleyjum eru ekki óvanir því að fíkniefni reki þar á land en eyjurnar eru á einni aðalflutningsleið fíkniefna í Kyrrahafi. Ekki er óalgengt að fólk finni sjórekin fíkniefni og skili þeim ekki til yfirvalda. Þetta hefur leitt til mikils fíkniefnavanda á eyjunum.