Frá því í sumar hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað mikið og eru nú tvöfalt fleiri en í sumar. Sjúkrahúsin í ríkinu eru við það að fyllast. Á nokkrum mánuðum hefur meðaltal látinna á dag margfaldast að sögn Newsom. Þetta hefur orðið til þessa að yfirvöld leita logandi ljósi að nauðsynlegum búnaði og heilbrigðisstarfsfólki auk fleiri sjúkrarýma.
Fyrirhugað er að setja upp stór tjöld við fjögur sjúkrahús í Orange County. Um þrjár milljónir búa í sýslunni en þar hefur smitum fjölgað mikið að undanförnu. Yfirvöld hafa beðið íbúa sýslunnar um að sleppa því að hitta aðra en fólk frá sama heimili.
Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og þar hafa flest smit verið staðfest eða rúmlega 1,6 milljónir. Rúmlega 21.000 hafa látist af völdum COVID-19 í ríkinu. Dagleg dauðsföll hafa farið úr um 40 í 160 síðan fyrir mánuði. Um 32.500 ný smit eru að jafnaði staðfest daglega.