Það er sérstök rannsóknarnefnd sem hefur komist að þessari niðurstöðu en hún hefur skilað af sér fyrsta hluta skýrslu um viðbrögð yfirvalda við heimsfaraldrinum. Í skýrslunni kemur fram að kerfið hafi ekki verið undir það búið að takast á við heimsfaraldurinn. Einnig kemur fram að kerfið, tengt umönnun aldraðra, hafi lengi glímt við skipulagsvanda. Á því beri núverandi ríkisstjórn Stefan Löfven og fyrri ríkisstjórnir ábyrgð. Löfven sagðist sammála þessu á fréttamannafundi í gær. „Það væri undarlegt eftir faraldur sem þennan ef við drægjum ekki ályktanir af honum og kæmumst að því að það þurfi að gera hluti öðruvísi,“ sagði hann.
Yfirvöld hafa viðurkennt að þau hefðu átt að vera fyrri til að banna heimsóknir á dvalarheimili og íbúðir aldraðra.
Löfven sagði í gær að hann væri ekki búinn að lesa skýrsluna og vilji því bíða með að tala meira um hvað hefði verið hægt að gera öðruvísi. Hann vildi heldur ekki svara spurningu um hvort skýrslan muni hafa pólitískar afleiðingar.
Frá 1. mars til 23. nóvember létust 3.002 íbúar á dvalarheimilum aldraðra og í þjónustuíbúðum fyrir aldraða af völdum COVID-19. 1.696 til viðbótar, sem nutu heimahlynningar, létust einnig að sögn Sænska ríkisútvarpsins. Í heildina hafa rúmlega 7.500 látist af völdum COVID-19 í Svíþjóð, 94% þeirra eru eldri en 65 ára.