BBC skýrir frá þessu. „Við verðum því miður að grípa til skjótra og afgerandi aðgerða því það er nauðsynlegt til að hafa stjórn á þessum banvæna sjúkdómi,“ sagði Hancock í samtali við BBC.
Þetta nýja afbrigði hefur fundist í suðurhluta Englands og hafa um 1.000 manns greinst með það. Sky News segir að þetta nýja afbrigði hafi fyrst fundist í Kent. Bresk yfirvöld hafa tilkynnt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO um þetta afbrigði.
Það er ekki óalgengt að veirur stökkbreytist og geta stökkbreytt afbrigði valdið mildari veikindum, svipuðum eða verri. Ef stökkbreytingin er ekki mjög mikil ætti hún ekki að hafa áhrif á virkni bóluefna.
Stökkbreyting er þegar varanleg breyting verður í erfðaefni veirunnar sem hefur það að markmiði að dreifa sér eins mikið og hún getur og því verður hún að laga sig að þeim sýkta, í tilfelli kórónuveirunnar er það fólk, þannig að hún geti fjölgað sér.
Thomas Moore, sérfræðingur Sky News í heilbrigðismálum, segir að stökkbreytt afbrigði veirunnar þurfi ekki endilega að vekja áhyggjur. Hér sé um veiru að ræða sem stökkbreytist aðra hverja viku og hafi gert frá upphafi. Flestar þessara stökkbreytinga hafi ekki haft nein áhrif.