fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Réðu síðasta dulmálsbréf Stjörnumerkjamorðingjans – Hver var hann? Hver voru fórnarlömb hans?

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 14. desember 2020 05:15

Teikning sem var gerð af morðingjanum. Mynd:Getty/Lögreglan í San Francisco

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópi áhugamanna tókst nýlega að leysa síðasta óleysta dulmálsbréfið frá hinum svokallaða Stjörnumerkjamorðingja sem herjaði á norðurhluta Kaliforníu á sjöunda áratugnum. Hann myrti að minnsta kosti fimm manns en talið er að hann hafi myrt fleiri en það en það hefur ekki verið staðfest. Hann fékk viðurnefnið Stjörnumerkjamorðinginn eftir að hann sendi bréf, sem má eiginlega segja að hafi verið ögrunar- eða stríðnisbréf, til lögreglunnar og fjölmiðla. Bréfin voru öll á dulmáli og hafði tekist að leysa þau öll nema eitt sem þremur áhugamönnum tókst nýlega að leysa.

Það bréf var sent til The San Francisco Chronicle í nóvember 1969. Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að það hafi verið ástralski hugbúnaðarverkfræðingurinn Sam Blake, bandaríski dulmálssérfræðingurinn David Oranchak og belgíski hugbúnaðarverkfræðingurinn Jarl Van sem hafi leyst dulmálið. Það var skrifað með 340 táknum sem þeir réðu. Innihald bréfsins er svohljóðandi í lauslegri þýðingu:

„ÉG VONA AÐ ÞIÐ SKEMMTIÐ YKKUR VEL VIÐ AÐ REYNA AÐ NÁ MÉR ÞETTA VAR EKKI ÉG Í SJÓNVARPSÞÆTTINUM SEM DREGUR UPP MYND AF MÉR ÉG ER EKKI HRÆDDUR VIÐ GASKLEFANN ÞVÍ HANN MUN SENDA MIG Í PARADÍS ÞEIM MUN FYRR ÞVÍ ÉG ER MEÐ NÓG AF ÞRÆLUM TIL AÐ VINNA FYRIR MIG ÞAR SEM AÐRIR HAFA EKKERT ÞEGAR ÞEIR KOMA Í PARADÍS SVO ÞEIR ERU HRÆDDIR VIÐ DAUÐANN ÉG ER EKKI HRÆDDUR ÞVÍ ÉG VEIT AÐ NÝJA LÍFIÐ MITT ER LÍF SEM VERÐUR AUÐVELT Í PARADÍS DAUÐANS.“

Vonast hafði verið til að í skilaboðunum væri eitthvað sem gæti varpað ljósi á hver morðinginn var en ekkert kemur fram um það. Alríkislögreglan FBI sagði í yfirlýsingu að sérfræðingar hennar hefðu farið yfir lausnina og samþykkt hana.

Eitt af dulmálsbréfunum frá morðingjanum. Mynd:Getty

Morðinginn hefur aldrei náðst og málið er enn til rannsóknar hjá lögreglunni.

Hver var Stjörnumerkjamorðinginn?

Hinn sjálfútnefndi Stjörnumerkjamorðingi var tengdur við fimm morð, sem voru framin í norðurhluta Kaliforníu 1968 og 1969, og er talinn hafa framið fleiri. Hann stríddi lögreglunni með því að senda henni og fjölmiðlum dulmálsbréf frá 1969 til 1974 en þá hætti hann því skyndilega.

Þrátt fyrir mikla rannsóknarvinnu var enginn handtekinn vegna morðanna og hafa þau alla tíð verið sveipuðu mikilli dulúð og orðið uppspretta margra bóka og kvikmynda.

Fjórar árásir hafa verið tengdar við Stjörnumerkjamorðingjann en fimm létust í þeim. Grunur leikur á að hann hafi myrt fleiri en ekki hefur verið hægt að staðfesta það.

Fyrsta árásin var gerð að kvöldi 20. desember 1968. Þá voru David Faraday, 17 ára, og 16 ára unnusta hans, Betty Lou Jens, skotin til bana nærri bíl þeirra á afskekktum stað við Lake Herman Road í útjaðri Vallejo í Kaliforníu. Lögreglan stóð ráðþrota og hafði ekki hugmynd um ástæðuna fyrir morðunum né hver gæti hafa verið að verki.

Betty Lou Jensen, David Faraday og Darlene Ferrin eru talin hafa verið myrt af Stjörnumerkjamorðingjanum. Mynd:Getty

Snemma að morgni 5. júlí 1969 sátu Darlene Ferrin, 22 ára, og unnusti hennar, Mike Mageau 19 ára, í kyrrstæðum bíl á afskekktum stað í Vallejo. Þá gekk maður, með vasaljós að þeim, og skaut mörgum skotum á þau. Ferrin lést en Mageau særðist alvarlega. Tæpri klukkustund síðar hringdi maður í lögregluna í Vallejo og gaf upp nákvæma staðsetningu vettvangsins og sagðist einnig hafa verið að verki þegar Faraday og Jensen voru myrt 1968. Þrátt fyrir að lögreglan hafi fundið fingraför hins grunaða á vettvangi og að Mageau hafi getað lýst honum og að margar ábendingar bárust fann lögreglan morðingjann ekki.

Að kvöldi 27. september 1969 lét hann til skara skríða á nýjan leik. Þá gaf hann sig að ungu pari, Cecelia Shepard og Bryan Hartnell, sem voru að slaka á við Lake Berryessa í Napa County. Hann var í hettupeysu og skyrtu með mynd af krossi sem hringur var utan um. Hann batt þau og stakk þau síðan, skrifaði skilaboð til lögreglunnar á hurð bíls þeirra og skildi þau eftir. Hann hringdi síðan í lögregluna í Napa og sagðist bera ábyrgð á árásinni. Shepard og Hartnell voru bæði á lífi þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang en Shepard lést skömmu síðar.

Aðeins tveimur vikum síðar, 11. október, skaut Stjörnumerkjamorðinginn Paul Stine, 29 ára leigubílstjóra, til bana í Persidio Heights í San Francisco. Í fyrstu var talið að um ránsmorð hefði verið að ræða og var Stjörnumerkjamorðinginn ekki tengdur við það fyrr en San Fransicso Chronicle fékk bréf frá honum þar sem hann játaði ódæðið á sig.

Talið er hugsanlegt að hann hafi myrt fimm til viðbótar. Þar á meðal Robert Domingos og Linda Edwards sem voru skotin til bana í Santa Barbara 1963 og Cheri Jo Bates sem var stungin til bana í Riverside í Kaliforníu 1966. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest með áreiðanlegum hætti.

Enginn hefur verið handtekinn vegna morðanna og það þrátt fyrir að lögreglan hafi látið gera teikningu af morðingjanum eftir frásögn vitna. Málið hefur að vonum pirrað lögregluna alla þessa áratugi en hún hefur ekki komist nálægt því að leysa það. Almenningur hefur einnig haft mikinn áhuga á málinu og margar kenningar hafa verið settar fram um hver morðinginn er. Ákveðin nöfn hafa verið nefnd en ekki hefur tekist að tengja viðkomandi við morðin með óyggjandi hætti og því eru málin enn óleyst og ólíklegt verður að teljast að hægt verði að leysa þau nema eitthvað sérstakt gerist. Ekki er heldur ósennilegt að morðinginn sé látinn og muni því aldrei játa ódæðin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás

Bandaríkjamenn loka sendiráði sínu í Úkraínu vegna gruns um yfirvofandi árás
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“

„Þetta hafa verið hrikalega löng tíu ár“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“

Deilur í innsta hring Trump – „Hann þarf að hafa sig hægan. Það er bara pláss fyrir einn forseta“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum

Rússar hóta að svara með kjarnorkuvopnum
Pressan
Fyrir 4 dögum

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans

David Attenborough miður sín þegar hann frétti að gervigreindin stal röddinni hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið

Stórfurðulegt tryggingasvindl – Sjáðu myndbandið