The Guardian skýrir frá þessu. „Yfirleitt höfum við eitthvað til að vinna út frá í upphafi rannsóknar en við höfum ekkert. Alls ekkert,“ sagði Jean-Marc Bordinaro hjá frönsku lögreglunni í samtali við blaðið.
Ýmsum möguleikum hefur verið velt upp í tengslum við málið. Lenti Esther í slysi? Varð hún fórnarlamb ofbeldismanns? Ákvað hún sjálf að láta sig hverfa? Bordinaro sagði að allir þessir möguleikar væru til skoðunar en engin svör hafi fengist.
Lögreglan hefur leitað á stóru svæði. Sérþjálfaðir leitarmenn, hundar og þyrlur hafa verið notaðar við leitina. Bordanaro sagði að ef Esther hafi fallið fram af skíðabraut og niður í sprungu sé hugsanlegt að hún finnist ekki fyrr en í vor þegar snjóa leysir.
Esther, sem er 37 ára, og unnusti hennar, Dan Colegate 38 ára, hafa ferðast um Evrópu síðustu sex ár í húsbíl sínum. Þau hafa haldið úti bloggsíðunni EstherandDan.com og Facebooksíðu þar sem þau hafa skýrt frá ferðum sínum. Einnig hafa þau gefið út bækur um ferðalögin.
Esther sást síðast 22. nóvember í Luchonnais í suðvesturhluta Frakklands. Hún var þá nýfarin af stað í mánaðarferðalag ein síns liðs á meðan Dan ætlaði að vera í Gers að gæta bóndabýlis þar.