NASA mun fljótlega taka ákvörðun um hvaða einkafyrirtæki mun flytja geimfara til tunglsins en það á að gerast á næstu þremur árum. „Þetta er geimflaugin sem mun flytja fyrstu konuna til tunglsins,“ skrifaði Bezos á Instagram og birti myndband af prófunum á BE-7 eldflaug í tilraunastöð NASA í Alabama.
Tólf karlar hafa gengið á yfirborði tunglsins en engin kona. NASA stefnir að því að breyta því á næstu árum. Jim Bridenstine, forstjóri NASA, sagði á síðasta ári að fyrsta konan, sem verður send til tunglsins, verði valin úr hópi núverandi geimfara stofnunarinnar. „Á sjöunda áratugnum var ekki mögulegt fyrir ungar konur að sjá sig í þessu hlutverki. Í dag geta þær gert það og ég tel þetta mjög spennandi tækifæri,“ sagði hann.
BE-7 eldflaugin á að flytja geimfar, sem lendir á tunglinu, á braut um tunglið. Blue Origin vinnur einnig að smíði geimfarsins sem á að nota en að því verkefni koma einnig Lockheed Martin, Northrop Grumman og Draper.