Samkvæmt frétt Indiewire þá kemur fram í tilkynningu frá Lucasfilm, sem er í eigu Disney, að í nýju myndinni verði kynnt til sögunnar ný kynslóð flugmanna orustugeimfara og að hinir frægu Jediar muni ekki koma við sögu.
En nýja myndin var ekki eina trompið sem Disney spilaði út í gær. Á fundi með fjárfestum var einnig kynnt að fyrirhugað sé að bæta enn við bæði Marvel- og Stjörnustríðsheimana á efnisveitunni Disney+.
Á næstu árum verða tíu nýjar þáttaraðir sýndar í Stjörnustríðsflokknum og það sama á við um Marvel. Þar á meðal verða tvær hliðarseríur af The Mandalorian. Einnig mun Disney taka 15 Disney- og Pixarmyndir til sýninga á Disney+ auk 15 þáttaraða.
Disney+ er nú með 87 milljónir áskrifenda og hefur fyrirtækið næstum náð því markmiði sem það setti sér um fjölda áskrifenda 2024.