Sjö sjúkdómar, sem smitast ekki á milli fólks, eru á meðal tíu algengustu dánarorsakanna í dag. Um aldamótin voru fjórir sjúkdómar, sem smitast ekki, á meðal tíu algengustu dánarorsakanna. Hjartasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin en þeir verða 16% allra að bana. The Guardian skýrir frá þessu.
Fram kemur að samkvæmt áætlun frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO þá séu Alzheimerssjúkdómurinn og aðrar tegundir vitglapa nú á meðal tíu algengustu dánarorsakanna. Andlátum af völdum sykursýki hefur fjölgað um 70% frá aldamótum.
Þessar nýju tölur sýna að þörf er á að auka áhersluna á forvarnir og meðferð við hjarta- og öndunarfærasjúkdómum að sögn Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra WHO.