Miklos Kasler, ráðherra mannauðsmála, skrifaði nýlega á Facebook að væntanlega muni 3.000 til 5.000 Ungverjar taka þátt í klínískum tilraunum á Sputnik V bóluefninu. Þetta gæti orðið til þess að samband ungverskra stjórnvalda við ESB versni enn frekar en það er frekar stirt þessa dagana vegna ágreinings um stöðu mannréttindamála í Ungverjalandi og fjárlög ESB.
Samkvæmt reglum ESB þarf Evrópska lyfjastofnunin að heimila notkun Sputnik V áður en það má nota bóluefnið í aðildarríkjum sambandsins. Sú heimild hefur ekki verið veitt.
Rússar byrjuðu að bólusetja almenning með Sputnik V um síðustu helgi. Meðal þeirra fyrstu til að fá bóluefnið voru læknar, kennarar og starfsfólk félagsmálayfirvalda. Áður var búið að bólusetja um 100.000 manns í áhættuhópum að sögn Mikhail Murasjko, heilbrigðisráðherra. Vladimír Pútín, forseti, segir að Rússar geti framleitt um tvær milljónir skammta af bóluefninu á næstu dögum.
Rússar voru meðal þeirra fyrstu til að tilkynna að þeir væru byrjaðir að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni og Sputnik V var fyrsta bóluefnið sem fékk samþykkt lyfjaeftirlitsins þar í landi. En margir vísindamenn eru fullir efasemda um rússneska ferlið og í Evrópu og Bandaríkjunum ríkja miklar efasemdir um Sputnik V.