Þetta segja íranskir fjölmiðlar að minnsta kosti að sögn Sky News. Fram kemur að hin hálfopinbera fréttastofa Mehr hafi haft eftir Ali Fadavi, næstæðsta yfirmanni Íranska byltingarvarðarins, að vélbyssunni hafi verið stýrt með gervigreind. 13 skotum hafi verið skotið að bíl Fakhrizadeh og að svo vel hafi verið miðað að ekkert skot hafi hæft eiginkonu Fakhrizade sem var með honum í bílnum.
„Yfirmaður öryggisgæslunnar var einnig skotinn fjórum skotum því hann kastaði sér á Fakhrizadeh. Enginn óvinur var á staðnum til að skjóta verðina,“ sagði Fadavi.
Íranska Press TV hafði eftir Ramezan Sharif, talsmanni Íranska byltingarvarðarins, að háþróuð vopn, stýrt um gervihnött, hafi verið notuð við morðið á Fakhrizadeh. Hann sakaði einnig Ísraelsmenn um að hafa staðið á bak við morðið en almennt er talið að ísraelska leyniþjónustan Mossad hafi komið að málum og jafnvel notið aðstoðar Bandaríkjamanna.