fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Pressan

Fjölskyldan hélt að hann væri í fríi – Síðan voru kennsl borin á leigjanda hans – Sleppur hann í fjórða sinn?

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 10. desember 2020 05:25

Hvar er Antonio Llabrés Mayrata? Mynd:Spænska lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvar er Antonio Llabrés Mayrata? Þetta er spurningin sem íbúar á Mallorca og spænska lögreglan reyna nú að svara. Tilkynnt var um hvarf þessa 48 ára Spánverja í ágúst og þykir hvarf hans mjög dularfullt og óttast margir hið versta. Í upphafi var talið að Antonio hefði farið í frí en hann hafði skömmu áður slitið sambandi við konu eina og um miðjan ágúst hringdi hann í móður sína og sagðist ætla til Ibiza.

Diario de Mallorca skýrir frá þessu. Síðar hringdi ættingi hans heim til hans en þá svaraði annar karlmaður. Ættinginn spurði eftir Antonio og fékk samband við hann. Þá er Antonio sagður hafa sagt: „Ég er bundinn,“ og síðan slitnaði sambandið. Þegar ekkert hafði heyrst frá honum í nokkra daga fóru ættingjar heim til hans þann 24. ágúst en hann býr á sveitabæ í Binissalem. En það sem þeir sáu þar gerði þá mjög tortryggna því Antonio hafði skilið hundinn sinn eftir, en hundurinn var það mikilvægasta í lífi hans, en einnig hittu þeir ókunnugan mann þar. Hann kynnti sig sem Juan Torres Serra og sagðist hafa leigt hjá Antonio síðan í vor. Hann sagðist ekki vita hvar hann væri en framvísaði handskrifuðum leigusamningi þar sem kom fram að hann hefði greitt 9.000 evrur fyrir leigu í þrjú ár að því er segir í umfjöllun Diario de Mallorca.

Hvar er Antonio Llabrés Mayrata? Mynd:Spænska lögreglan

Ættingjar Antonio voru hissa á þessu og það jók enn á grunsemdir þeirra að ekki hafði verið snert við bankareikningi Antonio síðan hann hvarf. Þeir tilkynntu því hvarf hans til lögreglunnar. Lýst var eftir honum en án árangurs. Leigjandinn var ekki grunaður um neitt misjafnt, að minnsta kosti ekki í upphafi.

Raðmorðingi?

Lögreglumenn rannsökuðu málið og fóru böndin þá að beinast að leigjandanum, Juan Torres sem er 57 ára, því hann hafði áður verið grunaður um morð í þremur svipuðum málum á Ibiza. Samkvæmt umfjöllun The Ibizan er hann þekktur sem „Sjóræninginn“. Á tíunda áratugnum sagði lögreglan að hann væri „óvinur samfélagsins á Ibiza númer eitt“.

Í málunum þremur eru kringumstæðurnar svipaðar og mennirnir hafa aldrei fundist. Antonio Ferrer Juan, 72 ára lögmaður, hvarf 4. desember 1997. Áður hafði hann sagt vini sínum að Juan Torres hefði reynt að kúga fé út úr honum. Lögreglan fann bíl lögmannsins við húsið þar sem Juan Torres bjó. Búið var að setja falskar númeraplötur á bílinn. Torres var handtekinn 1998, grunaður um aðild að hvarfi lögmannsins.  Hann bjó þá á sveitabæ sem var í eigu 41 árs Þjóðverja, Thomas Egner, sem var horfinn, svo undarlegt sem það kann að virðast. Ekkert hefur til hans spurst síðan. Juan Torres sagði að hann hefði farið til Suður-Ameríku og framvísaði skjali þar sem fram kom að hann hefði falið Juan Torres að sjá um sveitabæinn. Lögreglan taldi að Juan Torres hefði brennt eigur Þjóðverjans en þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir á sveitabænum og næsta nágrenni tókst aldrei að finna sannanir fyrir glæp.

Enn eitt málið

Juan Torres gekk því laus en þrátt fyrir að hann hafi sloppið við ákæru vegna tveggja hugsanlegra morða leið ekki á löngu þar til lögreglan á Ibiza beindi sjónum sínum aftur að honum. Hann var með marga dóma á bakinu fyrir ofbeldisbrot og í apríl 1998 var hann handtekinn. Hann hafði þá haldið manni föngnum, bundið hann og lokað inni í heila viku. Lögreglan taldi að ef manninum hefði ekki lánast að sleppa hefði hann líklegast „horfið“. Juan Torres var síðar þetta sama ár dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir mannrán.

Antonio Ferrer Juan, Thomas Egner og Francisco López Alvarez hurfu einnig. Mynd:Spænska lögreglan

2007 hvarf Francisco López Alvaresz, 60 ára, á Ibiza. Hann og Juan Torres þekktust úr fangelsinu og samkvæmt fréttum spænskra fjölmiðla var það Juan Torres sem síðast sá López á lífi en þeir voru saman nokkrum klukkustundum áður en hann hvarf. En eins og með hin málin þá voru ekki nægar sannanir til að hægt væri að sakfella Juan Torres og hann slapp því undan réttvísinni í þriðja sinn að margra mati.

Leita að líki

Víkur þá sögunni að nýjasta málinu, hvarfi Antonio á Mallorca. Þegar lögreglan áttaði sig á hver Juan Torres er og fortíð hans var hann handtekinn, grunaður um morð. En lögreglan stendur frammi fyrir velþekktu vandamáli. Hún er ekki með neitt lík eða sannanir um að afbrot hafi átt sér stað. Lögreglumenn gerðu umfangsmikla vettvangsrannsókn á sveitabænum og nærliggjandi svæðum en án árangurs. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir Juan Torres á föstudaginn en kröfunni var hafnað vegna skorts á sönnunum að sögn IB3 sjónvarpsstöðvarinnar. Dómarinn lagði hald á vegabréf hans svo hann gæti ekki flúið og skyldaði hann til að mæta í dómshúsið einu sinni í mánuði.

Ættingjar Antonio sögðu Diario de Mallorca að þeir væru vissir um að Juan Torres hafi myrt Antonio en spurningin er hvort það verði hægt að sanna það? Eða sleppur grunaður raðmorðingi í fjórða sinn?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða

Næringarfræðingur segir að þessar matvörur eigi fólk aldrei að borða
Pressan
Í gær

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?

Hver stal viskíi að verðmæti 12 milljóna?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum

Trump segir tíma til kominn að hætta klukkubreytingum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 6 dögum

Óhugnanlegur öryggisbrestur – Mörg hundruð sýni af banvænum veirum horfin

Óhugnanlegur öryggisbrestur – Mörg hundruð sýni af banvænum veirum horfin
Pressan
Fyrir 6 dögum

Segist hafa fengið klamýdíu af tæki í líkamsræktarstöð

Segist hafa fengið klamýdíu af tæki í líkamsræktarstöð