Ástæðan er að sjaldgæf og illskeytt baktería komst í sárin. Segja læknar að það sé kraftaverk að hann sé á lífi í dag en hann losnaði af gjörgæsludeild um helgina.
Beauden var í fríi í San Diego í Kaliforníu með foreldrum sínum, Brian og Juliana, þegar hann datt af hjólinu. Fjölskyldan býr í Arizona „Það er versta martröð allra foreldra að vera algjörlega hjálparvana,“ sagði faðir hans í samtali við USA TODAY.
Læknar vita ekki hvaðan bakterían, sem komst í sárin, kom. Hrufluð hnén virkuðu sem hlið fyrir eitraða bakteríuna til að komast inn í líkamann. Daginn eftir að Beauden hruflaði hnén fékk hann hita, var sljór og hélt um hnén að sögn foreldra hans. Daginn eftir átti hann erfitt með andardrátt og hitinn hafði ekki lækkað. Hnén voru bólgin.
Þau fóru með hann á sjúkrahús en þá voru fætur hans orðnir ískaldir og einnig var greinilegt að hann var með sýkingu í höndum. Hann var lagður inn á gjörgæsludeild þar sem hann var næstu tvo mánuðina.
Hann barðist fyrir lífi sínu dögum saman og þurfti að vera í öndunarvél um hríð. Læknar og foreldrar hans segja það kraftaverk að hann lifði af. „Hann átti ekki að geta lifað þetta af,“ sagði faðir hans.
Læknar segja að ónæmiskerfi Beauden hafi brugðist við bakteríunni með því að loka fyrir blóðflæði til handa og fóta til að geta varið mikilvægustu líffærin, sérstaklega heilann. Af þessum sökum varð að taka fótleggina af honum.