Nýlega þurftu dýralæknar á dýraspítalanum í Skive að gera aðgerð á ketti sem hafði innbyrt mikið magn af gjafaborðum. „Við höfum aldrei áður lent í því að magi kattar sé fullur af gjafaborðum,“ sagði Lars Jeppesen, dýralæknir. TV2 skýrir frá þessu.
Gjafaborðinn hafði stíflað magann algjörlega þannig að hann starfaði ekki lengur. Jeppesen varar fólk því við að láta gjafaborða, leiðslur, garn og annað álíka liggja þar sem kettir geta náð til. „Þeir vilja oft leika með snúrur. Það er líka bara fínt ef maður setur það til hliðar að leik loknum. Inn í skáp eða álíka. Köttur getur auðveldlega stokkið upp á borð eða ísskáp,“ sagði hann.
Kötturinn hefur náð sér að fullu en eigandi hans þarf nú að tryggja að engar snúrur eða borðar séu á stöðum sem kötturinn getur náð til þeirra því hann er haldinn þráhyggju og sækir stíft í allar snúrur, leiðslur og borða.