Þörfin er meiri en áður vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem hefur farið illa með milljónir manna um allan heim. Víða er ástandið svo slæmt að hungursneyð er yfirvofandi. SÞ telja að um 235 milljónir manna hafi þörf fyrir neyðaraðstoð á næsta ári, það eru 40% fleiri en á síðasta ári. Í fréttatilkynningu frá SÞ er haft eftir Mark Locwcock, hjá neyðaraðstoð SÞ, að aukin þörf fyrir neyðaraðstoð sé nær eingöngu tilkominn vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í skýrslu SÞ kemur fram að 1 af hverjum 33 jarðarbúum muni hafa þörf fyrir aðstoð. Ef allt þetta fólk byggi í sama landinu væri það fimmta fjölmennasta ríki heims.