Bild skýrir frá þessu. „Við erum í einstökum aðstæðum ólíkum öllu því sem við höfum upplifað í sögu gjörgæslu. Við erum á mörkum þess gerlega,“ sagði Marx sem starfar á gjörgæsludeild háskólasjúkrahússins í Aachen. Þangað koma fjórir nýir sjúklingar á dag að meðaltali. Níu eru í öndunarvél en ekki er hægt að hafa fleiri í öndunarvél samtímis þar sem ekki er nægilega margt starfsfólk til að annast sjúklingana.
Á síðustu sólarhringum hafa rúmlega 11.000 greinst með kórónuveiruna á hverjum sólarhring og tugir láta lífið daglega. Í heildina hafa rúmlega 16.000 látist af völdum veirunnar til þessa og rúmlega ein milljón hefur smitast.
Marx var með skýr skilaboð til stjórnvalda um aðgerðir vegna faraldursins: „Ef þetta snýst um að bjarga mannslífum þá hefðu síðustu sóttvarnaaðgerðir átt að vera enn harðari.“