„Ég vil gefa mig fram. Ég er nýbúinn að myrða unnustu mína,“ sagði skjálfandi karlmannsrödd sem hringdi í neyðarlínuna snemma að morgni 15. nóvember á síðasta ári. En ekki nóg með það því maðurinn myrti einnig fyrrum unnustu sína 82 mínútum síðar.
Unnusta mannsins var 31 árs og fyrrum unnustan 35 ára.
Á föstudaginn var upptaka af samtali mannsins við neyðarlínuna spiluð fyrir dóminn. „Hvernig gat ég bara drepið hana? Ég skil það ekki, ég skil það ekki“ sagði hann grátandi í símann. Símtalið barst aðeins fimm mínútum eftir að maðurinn hafði bundið enda á líf unnustu sinnar. Hann sleit síðan samtalinu og ók heim til fyrrum unnustu sinnar og varð henni að bana.
Á leiðinni hringdi hann í bróður sinn og sagði honum frá morðinu og að það hafi komið honum á óvart hversu auðvelt það hafi verið að stinga hnífnum í hana. Bróðurnum tókst ekki að fá upp úr honum hvert hann væri að fara. Klukkan 05.47 hringdi maðurinn aftur í lögregluna og sagðist vera búinn að myrða fyrrum unnustu sína. „Ég var í Knudby og er búinn að gera út af við fyrrum unnustu mína,“ sagði hann. Lögreglunni tókst að halda honum í símanum og sannfæra hann um að aka að lögreglustöðinni í Holbæk þar sem hann var handtekinn klukkan 06.07 án þess að sýna mótspyrnu.
Maðurinn ber við algjöru minnisleysi og segir það hugsanlega stafa af mikilli amfetamínneyslu. Hann segist ekki muna neitt vikuna fyrir morðin og þar til hann rankaði við sér í fangelsi. Verjandi hans krefst sýknu og segir að maðurinn hafi ekki ætlað sér að myrða konurnar. Samt sem áður leikur enginn vafi á að hann hafi stungið þær báðar margoft.