Manninum var strax komið undir læknishendur en hann er sagður hafa verið illa á sig kominn, tannlaus og með stór sár á líkamanum. Málþroski hans er sagður vera mjög lítill. Expressen og Aftonbladet skýra frá þessu. Lögreglan hefur verið sparsöm á upplýsingar um málið en talsmaður hennar staðfesti aðeins að málið væri til rannsóknar.
Íbúðinni er lýst sem hræðilegri, að hún hafi einna helst minnt á ruslahaug. Mikið magn af rusli var í henni og var aðeins hægt að ganga um eftir þröngum stígum innan um stafla af rusli.
Expressen hefur eftir ættingjum mæðginanna að maðurinn hafi gengið í skóla þar til hann var 12 ára en þá hafi hann horfið sjónum samfélagsins. Konan, sem fann hann, segir að hana hafi árum saman grunað að móðir mannsins héldi honum innilokuðum. „Móðirin blekkti samfélagið í öll þessi ár. Það er hræðilegt að hann hafi verið rændur öllu lífi sínu,“ er haft eftir henni. Aftonbladet hefur eftir ættingjum þeirra að konan hafi alla tíð ofverndað soninn og endað með að taka hann úr skóla.