Útgöngubannið nær til 121 af 308 sveitarfélögum landsins og gildir í 15 daga samkvæmt neyðarlögum. Þau er síðan hægt að framlengja um 15 daga í einu, í raun endalaust. Þeir sem vinna að næturlagi verða undanþegnir banninu. Um 70% landsmanna búa í þessu 121 sveitarfélagi en þeirra á meðal eru Lissabon og Porto. Um helgar gildir útgöngubannið frá klukkan 13 til 05 næsta morgun.
Margar verslanir verða lokaðar á þessum tíma en veitingastaðir mega senda mat heim til fólks.
Í samanburði við önnur Evrópuríki hefur Portúgal sloppið ágætlega frá kórónuveirunni. Þar hafa rúmlega 173.000 greinst með smit og 2.850 hafa látist af völdum COVID-19. En það hefur sigið heldur á ógæfuhliðina að undanförnu, á laugardaginn greindust til dæmis 6.640 ný smit. 2.420 voru þá á sjúkrahúsi, þar af 366 á gjörgæsludeild.
Það veldur hins vegar áhyggjum að hvergi í Evrópu eru færri pláss á gjörgæsludeildum á hverja 100.000 íbúa en í Portúgal. Í heildina geta gjörgæsludeildir landsins tekið við um 800 sjúklingum.