Sky News skýrir frá þessu. Merkin vara aðeins í örstutta stund en senda frá sér meiri orku á einni millisekúndu en sólin gerir á heilum degi. Niðurstöður þriggja rannsókna, sem hafa verið birtar í vísindaritinu Nature, varpa nú hugsanlega ljósi á upptök þessara dularfullu merkja. Rannsóknirnar byggja á athugunum sem voru gerðar í Kanada, Bandaríkjunum, Kína og úti í geimnum.
Þann 27. apríl á þessu ári námu tveir geimsjónaukar öfluga röntgengeisla og gammageisla sem bárust frá svæði hinum megin í Vetrarbrautinni. Þegar stjörnufræðingar beindu sjónaukum að þessu svæði daginn eftir námu þeir þessar gríðarlegu og hröðu útvarpsbylgjur, FRBs, sem voru nefndar 200428 eftir dagsetningunni.
Stjörnufræðingar vita í raun ekki hvað veldur FRBs en fyrrnefndar bylgjur, sem bárust úr vetrarbrautinni okkar, veita mikilvægar upplýsingar sem gætu orðið til að hægt verði að leysa þessa ráðgátu.
Þar sem bylgjurnar bárust úr okkar eigin sólkerfi gátu stjörnufræðingar rakið þær til líklegs upptakasvæðis þar sem nifteindastjarna með öflugt segulsvið er. Þetta eru leifar sprengistjörnu í um 30.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.