Þegar Josephine Fock, formaður Alternativet, heyrði þetta sagði hún:
„Við eigum á hættu að verða nýtt Wuhan. Þetta er ótrúlegt!“
Þar á hún við að Danmörk geti orðið upphafsstaður stökkbreytts afbrigðis af kórónuveirunni sem gæti í raun fært heimsbyggðina aftur á byrjunarreit í baráttunni við veiruna skæðu. Hans Jørn Kolmos, prófessor í örverufræði við Syddansk háskólann, tók í sama streng í viðtali við Århus Stiftstidene:
„Þetta er alþjóðlegt mál. Ef ekki er brugðist við eigum við á hættu að verða nýtt Wuhan. Við verðun skyndilega að senda skýrslur til WHO og þá byrjar þetta að vera hættulegt, þá erum við komin í allt aðra deild.“
Hann sagði hættu á að nýr heimsfaraldur geti hafist í Danmörku.
Stökkbreytta afbrigðið hefur fundist í 12 manns á Norður-Jótlandi. Kolmos gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki gripið nægilega fljótt inn í þegar ljóst var að stökkbreytt afbrigði af veirunni hafi orðið til í minkum. Hann sagðist telja að lóga hefði átt minkunum mun fyrr.