TV2 skýrir frá þessu. Haft er eftir Rune Hartmann, prófessor við Árósaháskóla, að rannsóknin bendi til þess að SARS-CoV-2 veiran, veiran sem veldur COVID-19, búi yfir eiginleikum sem gera að verkum að ónæmiskerfið uppgötvar hana ekki og byrjar því ekki að berjast gegn henni um leið og hún berst inn í líkamann. Hartmann vann að rannsókninni.
Það getur haft mikil áhrif á sjúkdómsferlið ef ónæmiskerfið greinir veiruna ekki strax.
„Það er ljóst. Það er eins og með eld, þeim mun seinna sem hann uppgötvast, þeim mun erfiðara er að slökkva hann. Þetta gefur veirunni forskot,“
er haft eftir Hartmann.
Hann sagði einnig að þegar veira leynist fyrir ónæmiskerfinu þá sé erfitt að berjast gegn henni með sóttkví smitaðra.
„Þetta þýðir að það er mjög erfitt að fá sóttkví til að virka. Fólk getur verið lengi á ferðinni án þess að vita að það er smitað,“
sagði hann.