Appið var upprunalega þróað í Danmörku en bandaríska fyrirtækið Under Armour keypti það árið 2015. Nú vill Under Armour ekki lengur reka appið og því verður því lokað frá og með áramótum. Ekki verður hægt að sækja það í appverslunum og engin þjónusta eða uppfærslur á því verða í boði.
Fyrirtækið vísar á appið UA MapMyRun í staðinn og segir að þar sé hægt að finna svipaða notkunarmöguleika og í Endomondo. Notendur Endomondo eiga á auðveldan hátt að geta flutt gögn sín yfir í UA MapMyRun.
Notendur Endomondo munu hafa aðgang að gögnum sínum fram til 31. mars á næsta ári og geta fram að því flutt þau yfir í UA MapMyRun eða önnur forrit. Eftir það verður öllum persónulegum gögnum notenda eytt.