Matthews játaði að hafa af ásettu ráði kveikt í kirkjunum sem tilheyrðu söfnuðum svartra baptista. Þetta gerði hann á tíu dögum í mars og apríl 2019. Hann sagðist hafa kveikt í þessum kirkjum til að reyna að styrkja feril sinn sem „Black Metal“ tónlistarmaður. Hann hermdi því eftir norskum tónlistarmanni, einnig „Black Metal“, sem kveikti í fjórum kirkjum í Noregi á tíunda áratugnum. CNN skýrir frá þessu.
Kirkjurnar, sem Matthews kveikti í, gjöreyðilögðust allar. Sögu þeirra mátti rekja aftur til endurreisnartímabilsins í kjölfar Þrælastríðsins. Margar kynslóðir svartra Bandaríkjamanna höfðu komið í þessar kirkjur í gegnum tíðina til að iðka trú sína að sögn Eric Dreiband aðstoðardómsmálaráðherra.