London Breed, borgarstjóri, tilkynnti þetta á laugardaginn. Útgöngubannið þýðir að á milli klukkan 22 og 05 verða öll fyrirtækin, sem ekki eru með rekstur sem telst ómissandi, að vera lokuð. Á sama tíma má fólk frá mismunandi heimilum heldur ekki hittast. Útgöngubannið mun gilda til 21. desember að minnsta kosti sagði Breed.
Sömu reglur munu gilda í San Mateo, sem er utan borgarinnar, en þar hefur smitum fjölgað mikið að undanförnu.
Auk útgöngubanns verða margar verslanir að loka algjörlega eða draga mjög úr umsvifum sínum. „Ég veit ekki hvernig ég get sagt þetta á skýrari hátt. Þetta er hættulegasti tíminn, sem við höfum staðið frammi fyrir í þessum faraldri,“ skrifaði hún á Twitter. „Ekki ferðast og ekki hitta annað fólk. Við verðum að ná tökum á þessu núna og við höfum ekki efni á að láta þetta halda svona áfram,“ skrifaði hún einnig.
Að meðaltali greinast nú 118 með kórónuveiruna daglega í borginni en í fyrstu viku nóvember greindust 73 að meðaltali á dag.
Yfirvöld í Kaliforníu settu útgöngubann á að næturlagi í nær öllu ríkinu fyrir viku en það gilti ekki í San Fransisco þar sem ástandið var ekki svo slæmt þar en nú er staðan önnur.