Á föstudaginn höfðu yfirvöld skráð 105.000 smit í borginni og rúmlega 2.200 dauðsföll. Samkvæmt gögnum frá Johns Hopkins háskólanum er dánartíðnin í Indónesíu ein sú hæsta í heimi.
Samkvæmt frétt The Washington Post þá gerir það ástandið ekki betra að á næstu mánuðum má reikna með fleiri dauðsföllum af öðrum orsökum en COVID-19 vegna monsúnrigninganna sem hefjast brátt.
Í Jakarta búa rúmlega 10 milljónir en borgin er lítil og þéttbýl. Þar eru því vandamál við að grafa alla því ekki má brenna líkin samkvæmt íslamskri trú en 90% landsmanna eru múslímar.
Yfirvöld gripu til umfangsmikilla sóttvarnaaðgerða í mars vegna heimsfaraldursins og hafa skólar verið lokaðir síðan og öll kennsla fer fram á netinu. Aðeins var slakað á hömlunum um miðjan október og gátu þá fleiri verslanir opnað en aðeins mátti hafa verslanir sem selja matvörur og lyf opnar fram að því.